Heimsmarkmiðin
Markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

Birta lífeyrissjóður vinnur að því að innleiða Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun í allri sinni starfsemi en um er að ræða umfangsmestu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um. Markmið þeirra er að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030.

Markmiðin eru 17 og hafa 169 áfanga sem varða ýmsa þætti eða fleti sjálfbærrar þróunar. Til að ná fram sjálfbærri þróun er mikilvægt að huga að velferð einstaklinga og samfélaga í gegnum þætti sem allir eru samtengdir, þ.e. efnahagslegan hagvöxt, félagslega þátttöku og umhverfisvernd.

Birta lífeyrissjóður lítur á sjálfbæra þróun sem langtímaverkefni sem sífellt þarf að huga að, bæta við og gera betur. Sjóðurinn vísar í þessu tilliti til þeirrar áherslu sem stjórnvöld hér á landi og annars staðar hafa lagt á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Birta mun leitast við að gera auknar kröfur með tilliti til málefna er varða umhverfið og samfélagslega ábyrgð á helstu haghafa sjóðsins, sbr. aðildarsamtök, iðgjaldagreiðendur, starfsfólk og stjórn sjóðsins sem og fyrirtæki sem eru í eignasafni lífeyrissjóðsins.