Stjórnháttayfirlýsing

Stjórnháttayfirlýsing Birtu lífeyrissjóðs byggist á lögum og reglum sem um sjóðinn gilda og á 6. útgáfu leiðbeininga Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja.

Stjórnháttayfirlýsing Birtu lífeyrissjóðs vegna ársins 2023

Birta lífeyrissjóður starfar samkvæmt samþykktum sem samþykktar eru á ársfundi og staðfestar af fjármálaráðuneytinu í samræmi við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Sjóðurinn lýtur eftirliti Seðlabanka Íslands (SÍ) og starfsemi hans er starfsleyfisskyld. Sjóðurinn varð til við samruna Sameinaða lífeyrisjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs og tók til starfa 1. desember 2016. Lífeyrissjóðir með fullgilt starfsleyfi eru skilgreindir sem eining tengd almannahagsmunum, sbr. staflið b í 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um endurskoðendur nr. 94/2019, sbr. staflið b í 9. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

Stjórnháttayfirlýsing Birtu lífeyrissjóðs byggist á lögum og reglum sem um sjóðinn gilda og á 6. útgáfu leiðbeininga Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja.

Sjóðurinn fylgir reglunum að svo miklu leyti sem þær eiga við um starfsemi lífeyrissjóða. Sjóðurinn leitast við að birta á heimasíðu sinni helstu reglur sem sjóðurinn fylgir en annars er vísað til heimasíðu Seðlabanka Íslands.

Lög, reglur og leiðbeinandi viðmið

Lög, reglugerðir, leiðbeinandi tilmæli og reglur SÍ sem gilda um starfsemi lífeyrissjóða má finna á heimasíðu fjármálaeftirlits Seðlabankans, www.fme.is, undir flipanum Réttarheimildir.

Samþykktir Birtu og leiðbeinandi viðmiðunarreglur sem sjóðurinn fylgir má finna á vefnum birta.is. Þar má m.a. finna eigendastefnu, reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, fjárfestingarstefnu og áhættustefnu.

Stjórn sjóðsins hefur meðal annars sett sér starfsreglur, verklagsreglur um verðbréfaviðskipti stjórnar og starfsmanna, reglur um fjárfestingar og reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar og eru þær hluti af innri reglum sjóðsins.

Helstu þættir innra eftirlits og áhættustýringarkerfa

Samkvæmt 8. tl. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997 ber stjórn lífeyrissjóðs m.a. að móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla.

Skv. reglum SÍ nr. 577/2012 um endurskoðunardeildir og sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila lífeyrissjóða er innra eftirlit skilgreint sem:

„... sérhver aðgerð af hálfu stjórnenda, stjórnar og starfsmanna til að stýra áhættu og auka líkur á að settum markmiðum verði náð við rekstur fyrirtækis eða stofnunar. Stjórnendur undirbúa, skipuleggja og stjórna þeim aðgerðum sem þörf er á innan fyrirtækis eða stofnunar til að veita hæfilega vissu fyrir að settum markmiðum verði náð.“

Innra eftirlit sjóðsins birtist m.a. í verklagsreglum sjóðsins og innri ferlum sem gilda um alla þætti í starfsemi hans, þ.m.t. bókhald, iðgjöld, lífeyri, veðskuldabréf, eignastýringu, rekstur og skjalastjórnun.

Regluvörður sjóðsins hefur eftirlit með viðskiptum stjórnarmanna og stjórnenda Birtu með fjármálagerninga. Auk þess heldur hann utan um upplýsingar um eignarhald þeirra í félögum og trúnaðarstörf þeirra fyrir félög. Þrátt fyrir að húsnæðislán teljist ekki til hagsmunatengsla er stjórn sjóðsins upplýst um það ef slík lán eru í vanskilum.

Samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða ber sjóðnum að starfrækja innri endurskoðunardeild eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að annast innra eftirlit. KPMG hefur annast innri endurskoðun sjóðsins samkvæmt samningi. Innri endurskoðandi vinnur í samræmi við samning um innri endurskoðun sem endurnýjaður var í ágúst 2020 og leggur fram innri endurskoðunaráætlun fyrir endurskoðunarnefnd sjóðsins, sem hefur eftirlit með störfum innri endurskoðanda. Niðurstöður innri endurskoðunar eru kynntar fyrir endurskoðunarnefnd, stjórn og stjórnendum sjóðsins. Helga Harðardóttir hjá KPMG, sem annast hefur innri endurskoðun undanfarin ár, lét af störfum hjá KPMG veturinn 2023. Vinna við endurskoðun samninga um innri endurskoðun stendur yfir innan sjóðsins. Nánar er kveðið á um hlutverk og eftirlitsskyldur innri endurskoðanda í reglum SÍ nr. 577/2012.

Samkvæmt samþykktum sjóðsins skal ársreikningur sjóðsins vera endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðandi sjóðsins er kjörinn á ársfundi eftir umsögn endurskoðunarnefndar. Á ársfundi 2022 var Kristinn F. Kristinsson hjá PwC endurkjörinn sem endurskoðandi sjóðsins. Ársreikningur sjóðsins er endurskoðaður í samræmi við lög um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019 og alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Til staðar er ráðningarbréf undirritað í september 2022 þar sem ábyrgð og skyldur endurskoðanda og stjórnenda eru skilgreind. Samskiptaáætlun endurskoðanda er lögð fyrir endurskoðunarnefnd til umfjöllunar.

Skv. 9. tl. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997 ber stjórn lífeyrissjóðs að setja áhættustefnu og móta eftirlitskerfi með áhættu sjóðsins.

Um áhættustýringu lífeyrissjóða gilda ákvæði laga og reglugerða, þ.m.t. reglugerð nr. 590/2017 um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða. Á grundvelli þessa hefur Birta sett sér áhættustefnu þar sem skilgreind er áhætta sem fylgir starfseminni og viðunandi mörk sett eftir því sem við á.

Nánar er fjallað um áhættustýringu sjóðsins í kafla 2.9 Áhættustýring og í skýringu 18 í ársreikningi.

Samfélagsleg ábyrgð og siðferðisviðmið

Vinnugildi sjóðsins eru heiðarleiki, fagmennska og ábyrgð. Sjóðurinn leggur áherslu á að starfsmenn þekki gildin og tileinki sér þau í störfum sínum. Óskagildi sjóðsins er traust. Sjóðstjórn telur að sjóðurinn geti áunnið sér og viðhaldið því með vinnugildunum.

Stjórn sjóðsins og starfsmönnum er ljós sú ábyrgð sem því fylgir að hafa umsjón með fjármunum í eigu sjóðfélaga. Í ljósi þess hafa stjórn og starfsmenn sett sér sérstakar samskipta- og siðareglur sem ætlað er að stuðla að góðum starfsháttum og samskiptum á fjármálamarkaði.

Birta lífeyrissjóður er aðili að sáttmála SÞ um ábyrgar fjárfestingar (e. Principles for Responsible Investment). Það er mat stjórnar og stjórnenda Birtu að eðlilegt sé að byggja samfélagslega ábyrgð og siðferðisleg viðmið í fjárfestingum sjóðsins á grunni þess sáttmála, enda er þar kveðið á um viðurkennd viðmið í alþjóðasamfélaginu að því er lýtur að umhverfislegum og félagslegum málefnum og góðum stjórnarháttum.

Í viðauka við ársreikning er að finna nánari upplýsingar um stjórnarhætti, umhverfis- og félagsmál.

Samsetning og starfsemi stjórnar, endurskoðunarnefndar og fjárfestingaráðs

Um starfsemi stjórnar vísast einkum til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Stjórn fundaði alls 16 sinnum á árinu 2023. Varamaður var boðaður þrisvar sinnum á fund í forföllum aðalmanns. Varamenn voru auk þess boðaðir á þrjá reglulega fundi stjórnar skv. starfsáætlun.

Starfsreglur stjórnar er að finna á heimasíðu sjóðsins.

Stjórn sjóðsins er skipuð fulltrúum launamanna og atvinnurekenda að jöfnu. Stjórnin er skipuð átta mönnum og eru fjórir kjörnir af fulltrúum launamanna og fjórir kjörnir af samtökum atvinnurekenda. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár og eru tveir fulltrúar launamanna og tveir fulltrúar atvinnurekenda kosnir hvert ár. Tryggt er að kynjahlutföll í stjórninni séu í samræmi við ákvæði laga. Helmingi færri varamenn eru kosnir með sama hætti og til sama tíma og aðalmenn.

Stjórn Birtu lífeyrissjóðs

Í stjórn Birtu sitja:

Valdir af fulltrúum launafólks:

Hrönn Jónsdóttir

  • Fædd: 1980
  • Menntun: Marmiðlunarhönnuður og prentsmiður
  • Starf: Online Writer hjá Marel Iceland hf.
  • Hrönn tók sæti sem varamaður í stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins árið 2013 og í stjórn Birtu lífeyrissjóðs frá árinu 2018. Hrönn er einnig varamaður í Starfsgreinaráði upplýsinga- og fjölmiðlagreina.
  • Hrönn á ekki eignarhlut í fyrirtæki sem á aðild að Birtu lífeyrissjóði.
  • Hrönn er virkur sjóðfélagi í Birtu lífeyrissjóði og borgar fyrirtækið sem hún starfar hjá iðgjöld til Birtu samkvæmt kjarasamningi.
  • Kjörin til ársfundar 2024.
Valdir af fulltrúum launafólks:

Jakob Tryggvason

  • Fæddur: 1972
  • Menntun: M.a. diploma í hljóðtækni við Háskólann í Surrey og samsett nám úr fjölda tölvu- raf- og tæknigreina.
  • Starf: Formaður Félags tæknifólks og gjaldkeri Rafiðnaðarsambands Íslands.
  • Jakob tók fyrst sæti í stjórn Stafa lífeyrissjóðs árið 2011 og síðar í stjórn Birtu lífeyrissjóðs frá 2016 til 2020.
  • Jakob á ekki eignarhlut í fyrirtæki/félagi sem á aðild að Birtu lífeyrissjóði.
  • Jakob er virkur sjóðfélagi í Birtu lífeyrissjóði og borgar fyrirtækið sem hann starfar hjá iðgjöld til Birtu samkvæmt kjarasamningi.
  • Ásamt störfum sem gjaldkeri Rafiðnaðarsambands Íslands er Jakob einnig í miðstjórn og framkvæmdastjórn sambandsins. Jakob á sæti í lífeyrisnefnd ASÍ og er stjórnarformaður Menntasjóðs rafiðnaðarins.
  • Kjörinn til ársfundar 2025.
Valdir af fulltrúum launafólks:

J. Snæfríður Einarsdóttir

  • Fædd: 1977
  • Menntun: 4.stig vélstjórn, sveinspróf vélvirkjun, BA sálfræði, MS stjórnun og stefnumótun.
  • Starf: Áhafnastjóri Eimskip
  • Snæfríður tók sæti í stjórn Birtu árið 2023.
  • Snæfríður á ekki eignarhlut í fyrirtæki/félagi sem á aðild að Birtu lífeyrissjóði.
  • Hún er virkur sjóðfélagi í Birtu lífeyrissjóði og borgar fyrirtækið sem hún starfar hjá iðgjöld til Birtu samkvæmt kjarasamningi.
  • Kjörin til ársfundar 2025.
Valdir af fulltrúum launafólks:

Örvar Þór Kristjánsson, varaformaður stjórnar

  • Fæddur: 1978
  • Menntun: B.S. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Diplóma í rekstri og stjórnun frá Tækniskólanum. Sveinspróf í stálvirkjasmíði.
  • Starf: Innkaupastjóri hjá Marel ehf. á Íslandi
  • Örvar Þór tók fyrst sæti í stjórn Birtu lífeyrissjóðs árið 2021.
  • Örvar Þór er virkur sjóðfélagi í Birtu lífeyrissjóði og borgar fyrirtækið sem hann starfar hjá iðgjöld til Birtu samkvæmt kjarasamningi.
  • Örvar Þór á óverulegan eignarhlut í Marel hf.
  • Kjörinn til ársfundar 2024.
Valdir af fulltrúum Samtaka atvinnulífsins:

Álfheiður Ágústsdóttir

  • Fædd: 1981
  • Menntun: B.s. í viðskiptafræði og MLS í forystu og stjórnun.
  • Starf: Forstjóri Elkem Ísland
  • Álfheiður tók fyrst sæti í stjórn Birtu lífeyrissjóðs árið 2021. Álfheiður er stjórnarformaður Klafa ehf. og situr í stjórn Elkem Materials Inc.
  • Álfheiður á ekki eignarhlut í fyrirtæki/félagi sem á aðild að Birtu lífeyrissjóði.
  • Kjörin til ársfundar 2025. Álfheiður sagði sig úr stjórn í nóvember 2023.
Valdir af fulltrúum Samtaka atvinnulífsins:

Pálmar Óli Magnússon, formaður stjórnar

  • Fæddur: 1966
  • Menntun: vélaverkfræðingur og viðskiptafræðingur
  • Starf: Forstjóri Daga hf.
  • Pálmar Óli tók fyrst sæti í stjórn Birtu lífeyrissjóðs árið 2018.
  • Pálmar Óli á ekki eignarhlut í fyrirtæki/félagi sem á aðild að Birtu lífeyrissjóði.
  • Pálmar Óli er virkur sjóðfélagi í Birtu lífeyrissjóði og borgar fyrirtækið sem hann starfar hjá iðgjöld til Birtu samkvæmt kjarasamningi.
  • Kjörinn til ársfundar 2024.
Valdir af fulltrúum Samtaka atvinnulífsins:

Sigurður R. Ragnarsson

  • Fæddur: 1965
  • Menntun: MSc. í byggingaverkfræði
  • Starf: Stjórnarformaður Íslenskra aðalverktaka (ÍAV)
  • Sigurður tók fyrst sæti í stjórn Birtu lífeyrissjóðs árið 2021. Sigurður situr í framkvæmdastjórn Samtaka iðnaðarins sem varaformaður og í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins.
  • Sigurður á ekki eignarhlut í fyrirtæki/félagi sem á aðild að Birtu lífeyrissjóði.
  • Kjörinn til ársfundar 2025.
Valdir af fulltrúum Samtaka atvinnulífsins:

Þóra Eggertsdóttir

  • Fædd: 1980
  • Menntun: MBA, Háskólinn í Reykjavík, próf í verðbréfamiðlun. M.Sc. í markaðsfræði, EADA Business School Barcelona, B.Sc. í viðskiptafræði (fjármál), Háskólinn í Reykjavík
  • Starf: Fjármálastjóri hjá Icelandia
  • Þóra var kjörin í stjórn Birtu lífeyrissjóðs árið 2020. Hún er einnig varamaður í stjórn Norlandair.
  • Þóra á ekki eignarhlut í fyrirtæki/félagi sem á aðild að Birtu lífeyrissjóði.
  • Kjörin til ársfundar 2024.

Lögð var könnun fyrir stjórn í febrúar 2024 þar sem spurt var út í stjórnarhætti

Helstu þættir í árangursmati voru eftirfarandi:

  • Hlutverk og ábyrgð stjórnar
  • Stjórnarfundir
  • Frammistaða framkvæmdastjóra
  • Undirnefndir stjórnar
  • Skilvirkni áhættustýringar
  • Virkni stjórnar í stefnumótun
  • Inntak siðareglna

Fjárfestingaráð Birtu lífeyrissjóðs

  • Soffía Gunnarsdóttir forstöðumaður eignastýringarsviðs
  • Loftur Ólafsson sjóðstjóri
  • Kristín Jóna Kristjánsdóttir sjóðstjóri
  • Tryggvi Guðbrandsson sjóðstjóri

Meginhlutverk fjárfestingaráðs er að fjalla um þá þætti í starfsemi sjóðsins sem lúta að fjárfestingum. Fjárfestingaráð er skipað starfsfólki eignastýringar sjóðsins. Ef áhættunefnd er mótfallinn tillögu um fjárfestingu er hún send stjórn til ákvörðunar. Fjárfestingaráð fundaði alls 18 sinnum á árinu 2023.

Áhættunefnd

  • Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri
  • Kristján Geir Pétursson, lögfræðingur
  • Eyrún Einarsdóttir, áhættustjóri

Meginhlutverk áhættunefndar er að meta sjálfstætt áhættu af fjárfestingarstarfsemi sjóðsins. Áhættunefnd metur, eftir atvikum að höfðu samráði við formann og varaformann stjórnar, hvort vísa beri málum til stjórnar til ákvarðanatöku. Áhættunefnd tók til starfa í desember 2023.

Endurskoðunarnefnd

Um starfsemi endurskoðunarnefndar vísast til IX. kafla A laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Upplýsingar um endurskoðunarnefnd má finna á síðunni um Birtu á vefnum.

Samkvæmt starfsreglum nefndarinnar skal hún skipuð þremur mönnum og skal að minnsta kosti einn þeirra vera stjórnarmaður í sjóðnum. Stjórn sjóðsins skipar formann nefndarinnar og tvo aðra í kjölfar ársfundar og eigi síðar en mánuði eftir ársfund. Sé nefndarmaður utanaðkomandi aðili skal hann tilnefndur á ársfundi. Formaður nefndarinnar skal vera óháður sjóðnum. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar og a.m.k. einn nefndarmanna skal hafa staðgóða þekkingu á sviði reikningsskila og endurskoðunar. Meirihluti nefndarmanna skal vera óháður sjóðnum í skilningi laga um ársreikninga.

Nefndin fundaði alls 7 sinnum á árinu 2023.

Starfsreglur endurskoðunarnefndar er að finna á heimasíðu sjóðsins.

Nefndir á grundvelli kjarasamnings ASÍ og SA, dags. 24. apríl 2018.

Á grundvelli kjarasamnings ASÍ og SA frá 24. apríl 2018 eru starfandi valnefndir launamanna og atvinnurekenda og nefnd um laun stjórnarmanna. Þá hefur fulltrúaráð launamanna á að skipa sérstakri kjörnefnd auk stjórnar fulltrúaráðs. Þessar nefndir eru hluti af stjórnskipan sjóðsins, á forræði aðila vinnumarkaðarins. Sjá nánar kaflann um stjórnskipan á síðu 1.5 Stjórnarhættir

Starfsreglur valnefndar launamanna og kjörnefndar má finna á heimasíðu sjóðsins.

Upplýsingar um framkvæmdastjóra sjóðsins og lýsing á helstu skyldum hans

Framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs er Ólafur Sigurðsson.

Framkvæmdastjóri stjórnar daglegum rekstri sjóðsins í samræmi við lög og reglur sem um starfsemina gilda.

Fæddur: 1970

Dagsetning ráðningar: Ráðinn til starfa 11. október 2016. Birta lífeyrissjóður tók til starfa 1. desember 2016. Var áður framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs. Ólafur situr í stjórn Reiknistofu lifeyrissjóða, RL.

Menntun: Meistaragráða í erfðafræði frá Paris Lodron University of Salzburg, viðskipta- og rekstrarfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands og lokið prófi í löggiltri verðbréfamiðlun.

Ólafur er virkur sjóðfélagi í Birtu lífeyrissjóði. Hann á ekki eignarhlut í fyrirtæki/félagi sem á aðild að Birtu lífeyrissjóði eða er í viðskiptum við sjóðinn.

Framkvæmdastjóri Birtu hefur yfirumsjón með daglegum rekstri sjóðsins. Hann hefur ákvörðunarvald í öllum rekstrar- og fjárhagslegum málefnum sjóðsins samkvæmt fyrirmælum stjórnar. Framkvæmdastjóri hefur verið metinn hæfur af Seðlabanka Íslands. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjóri er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka með sérstakri ákvörðun stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur. Honum ber einnig að fylgja þeirri fjárfestingarstefnu sem og þeim útlánareglum sem stjórnin setur. Á reglubundnum stjórnarfundum skal framkvæmdastjóri leggja fram yfirlit um fjárfestingar, rekstur og efnahag sjóðsins.

Annað

Samskipti sjóðsins við sjóðfélaga, sem varða ábendingar eða frávik, eru skráð og eftir atvikum vísað til stjórnar ef sérstaklega er óskað þess. Í samskipta- og siðareglum sjóðsins er jafnframt að finna leiðbeiningar um hvernig farið skuli með tilkynningar vegna brota á reglunum. Skal þeim beint til framkvæmdastjóra, regluvarðar og eftir atvikum formanns endurskoðunarnefndar.

Einnig eru til staðar reglur um meðferð kvartana.

Samskipta- og siðareglur sjóðsins eru aðgengilegar á vefnum birta.is.

Sjóðurinn vinnur að stefnu um fjölbreytileika.