Þjónusta

Birta leggur áherslu á að veita sjóðfélögum frábæra þjónustu með fagmennsku, ábyrgð og heiðarleika að leiðarljósi.

Góð og persónuleg þjónusta

Við viljum veita framúrskarandi þjónustu með góðri samvinnu, jákvæðu viðmóti og virðingu

Við höfum sett okkur þjónustustefnu sem við vinnum eftir.

Við leggjum áherslu á að veita sjóðfélögum framúrskarandi þjónustu. Starfsfólk okkar býr yfir sérfræðiþekkingu hvert á sínu sviði og leggur mikið upp úr því að veita sjóðfélögum faglega, gagnlega og góða leiðsögn.

Þjónustustig sjóðsins er hátt og þjónustan á skrifstofu sjóðsins fær hæstu einkunn sjóðfélaga. Að baki þess árangurs liggur markviss vinna og fræðsla til starfsmanna um að veita framúrskarandi þjónustu, sama hvort hún er veitt á skrifstofu sjóðsins eða með rafrænum lausnum. Við leggjum áherslu á að bjóða upp á notendavænar rafrænar lausnir sem sjóðfélagar geta nýtt sér þegar þeir sækja upplýsingar um stöðu sína hjá sjóðnum, sækja um lífeyri, séreignarsparnað eða lán.

Á árinu 2023 lauk uppsetningu og innleiðingu á nýju viðskiptamannakerfi í nokkrum deildum sjóðsins. Kerfið snýr að viðskiptatengslum okkar og sjóðfélaga okkar. Um er að ræða aðferðarfræði við að byggja upp og auka virði viðskiptasambands fyrir báða aðila með því að bæta ferli í þjónustu og markaðssetningu. Í kerfinu höldum við utan um öll samskipti við fyrrverandi, núverandi og verðandi sjóðfélaga okkar og viðskiptavini. Áfram verður unnið að innleiðingu kerfisins, þá í fleiri deildum sjóðsins og stefnt er að því að það verði komið í fulla virkni á árinu 2024.

Um 1.560 sjóðfélagar heimsóttu skrifstofu Birtu á árinu, en fjölmargir sjóðfélagar nýttu sér rafræna þjónustu, höfðu samband símleiðis eða með tölvupóstsamskiptum.

Til að þjónusta sjóðfélaga sem best er stöðugt unnið að endurbótum á vefsíðunni, birta.is.

Þjónustustefna Birtu lífeyrissjóðs

Starfsfólk Birtu lífeyrissjóðs veitir persónulega þjónustu. Við fylgjum mörgum á lífsins leið og berum því mikla ábyrgð. Við aðstoðum á faglegan hátt og gætum þess að mæta sjóðfélögum og viðskiptavinum af nærgætni og fagmennsku með hag þeirra að leiðarljósi. Sjóðurinn hugsar í framtíð og stundar nútímaleg, tæknileg og vönduð vinnubrögð. Með þessu er leitast við að veita samræmda þjónustuupplifun fyrir alla okkar sjóðfélaga og viðskiptavini.

Þjónustan

Birta lífeyrissjóður tekur á móti fjölda umsókna á hverju ári ásamt því að veita ráðgjöf til sjóðfélaga

1.560
Heimsóknir á skrifstofu
5.049
rafrænar umsóknir
13.200
Símtöl vegna ráðgjafar

Tryggingavernd og fjármálaþjónusta með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi

Starfsemi Birtu þjónar fyrst og fremst íslenskum neytendamarkaði

Birta lífeyrissjóður veitir tryggingavernd og fjármálaþjónustu á íslenskum neytendamarkaði. Við gætum hagsmuna sjóðfélaga sem neytenda og verndum sjóðfélaga eins og neytendur samkvæmt lögum um neytendakaup. Við sundurgreinum markaði sem Birta þjónustar með eftirfarandi hætti:

Íslenskur tryggingamarkaður

Samtryggingardeild Birtu veitir lífeyristryggingar (lágmarkstryggingavernd) samkvæmt samþykktum og lögum þar um og telst sá þáttur veigamestur í starfsemi Birtu. Rúmlega 100 þúsund einstaklingar njóta tryggingaverndar samtryggingardeildar Birtu þar sem tryggingaverndin ræðst af uppsöfnuðu iðgjaldi yfir starfsævina. Tryggingaverndin er hluti af kjarasamningsbundinni aðild launamanna að sjóðnum samkvæmt samþykktum og lögum um lífeyrissjóði. Þar að auki geta aðilar, sem hvorki eru bundnir kjarasamningum aðildarfélaga Birtu né njóta ráðningarbundinna starfskjara sem byggð eru á kjarasamningum, greitt til samtryggingardeildar Birtu.

Séreignardeild Birtu veitir viðbótartryggingavernd, oft nefnt séreignarsparnaður, með samningum um tryggingavernd, sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem samtryggingardeild Birtu veitir. Alls eiga 31.153 rétthafar hlutdeild í séreignardeild Birtu og 2.189 rétthafar í tilgreindri séreignardeild.

Fasteignalánamarkaður

Heildareignir Birtu í fasteignalánum til neytenda námu um 60,3 milljarða í árslok 2023. Lántökum fækkar nokkuð milli ára og voru þeir um 3.400 í árslok.

Húsnæðislán til neytenda námu samtals rúmum 2.587 milljörðum í árslok 2023 og lækkaði markaðshlutdeild Birtu úr 2,5% í 2,3% milli ára. Markaðshlutdeild viðskiptabankanna er í kringum 70%, sem er lækkun um eitt prósentustig frá árinu áður. Hlutdeild lífeyrissjóðanna eykst áfram og fer í 24,5% úr 22,7% á árinu 2022 og hlutdeild Íbúðalánasjóðs og annarra aðila lækkar í 5,4% úr 6% árið áður.