Um rekstrarárið 2023 mætti í fáum orðum segja að allt er gott sem endar vel. Fyrir rúmu ári síðan voru væntingar stjórnar og sérfræðinga sjóðsins til ávöxtunar þær að líklegast yrði raunávöxtun eigna neikvæð um 1,3%. Ítarlega var gerð grein fyrir þeirri afstöðu í fjárfestingarstefnu síðasta árs og fram eftir árinu leit út fyrir að niðurstaðan yrði jafnvel verri, enda markaðir mjög mótdrægir og verðbólgan jafnvel hærri en gert var ráð fyrir. Það er því ánægjulegt að birta jákvæða raunávöxtun eigna upp á 1,12% með jákvæðum horfum.
Sambærilegar væntingar fyrir núverandi rekstrarár eru að raunávöxtun verði um 3,5% og eitthvað hefur dregið úr óvissu í hagkerfinu þó verðbólgan hjaðni hægar en vonast er til.
Það eru margar leiðir til að segja frá afkomu ársins og ein leið er að segja að fjárfestingartekjur hafi verið 53 milljarðar. Sú tala ein og sér segir ekki mikið fyrr en hún er sett í samhengi við stærð sjóðsins. Í okkar tilviki endurspegla 53 milljarðar, 9,2% nafnávöxtun. Að sama skapi segir nafnávöxtun ein og sér ekki mikið fyrr en hún er sett í samhengi við undirliggjandi verbólgu. Raunávöxtun sjóðsins, þ.e. ávöxtun eigna umfram verðbólgu, er einn af lykilárangursmælikvörðum okkar og nam hún 1,12% á síðasta ári eins og fram hefur komið.
Ávöxtun eigna á milli ára getur verið sveiflukennd og eitt ár í rekstrarsögu lífeyrissjóðs er stuttur tími. Þess vegna er enn ánægjulegra að birta bæði fimm og tíu ára meðalraunávöxtun sem er vel yfir 3,5% langtíma viðmiði. Sá árangur er ekki einungis yfir langtímamarkmiðum stjórnar heldur sýnir samanburður við aðra lífeyrissjóði að árangurinn er samkeppnishæfur.
Í rekstri lífeyrissjóðs er það ekki síður tryggingafræðileg afkoma sem skiptir máli, enda er meginhlutverk Birtu að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum, lífeyri. Tryggingafræðileg staða Birtu er neikvæð um 6,63% sem er annað árið í röð, af fimm mögulegum samkvæmt lögum, sem sjóðurinn er umfram 5% halla. Stjórnin þarf þó ekki, og mun ekki, leggja til breytingar á samþykktum sjóðsins en minnir haghafa á að við höfum þrjú ár til að rétta tryggingafræðilega stöðu sjóðsins af eða koma henni undir tilskilin mörk.
Ábyrgð stjórnar og umboðsskylda á hverjum tíma er að ástunda sjálfbæran rekstur. Hluti af því er að vera bær um að greiða lífeyri til framtíðar, þ.e. að sjóðurinn beri sig sjálfur. Á síðasta ári samþykktu fulltrúar á ársfundi breytingartillögu stjórnar á réttindaávinnslu til framtíðar hvar brugðist var við breyttu mati á lífslíkum þar sem spáð er fyrir um væntar auknar lífslíkur. Sú aðgerð hefur gert sjóðinn sjálfbærari til framtíðar en ekki voru gerðar breytingar á áunnum réttindum. Var þar fyrst og fremst horft til lagalegrar óvissu um þær leiðir sem lífeyrissjóðir höfðu til skoðunar.
Á síðasta ári féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur sem dró síður en svo úr lagalegri óvissu og hefur Hæstiréttur samþykkt málskotsbeiðni og þar með flýtimeðferð í málinu. Niðurstaðan í því máli mun hafa fordæmisgildi og almenna þýðingu fyrir túlkun á þeim réttarreglum sem sjóðurinn styðst við þegar lagðar eru til breytingar á lífeyrisréttindum. Gert er ráð fyrir að staða sjóðsins verði endurmetin þegar dómur liggur fyrir.
Það þarf ekki að leita langt og ræða við marga til að skilja að ráðdeild í rekstri og hófsemi skiptir sjóðfélaga miklu máli. Stjórn og starfsfólk Birtu gerir sér fyllilega grein fyrir því að umburðarlyndi er lítið fyrir yfirbyggingu og bruðli með sameiginlegar eignir. Að mati stjórnar er rekstur Birtu skynsamlegur og aðhaldssemi einkennir öll útgjöld án þess að skorið sé við nögl.
Ráðdeild endurspeglar útgjöld sem eru vel ígrunduð og hafa þau skýran rekstrarlega tilgang. Unnið er samkvæmt rekstraráætlun sem stjórn samþykkir og eru frávik metin ársfjórðungslega. Við gerð og undirbúning rekstraráætlunar er leitað hagkvæmra leiða án þess að storka öryggi og gæðum. Á síðasta ári var skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu eigna 0,15% sem var bæði í samræmi við áætlun og á meðal þess lægsta sem gerist í rekstri lífeyrissjóða.
Stöðugt er leitað leiða til að auka skilvirkni og viðhalda framleiðniaukningu á milli ára. Á undangengnum árum hefur sjóðurinn tekið stór skref í rafrænum lausnum sem gerir sjóðinn aðgengilegri fyrir sjóðfélaga. Fjölmörg dæmi eru fyrir því í rekstri Birtu að tæknin hafi einfaldað verklag hjá starfsfólki og gert því mögulegt að þjónusta sjóðfélaga betur en áður. Þannig hefur sjóðurinn svo gott sem viðhaldið sama fjölda stöðugilda frá árinu 2016 þrátt fyrir mikinn vöxt yfir sama tímabil. Tekist hefur að auka framleiðni í þjónustu til muna á milli ára og er þar fyrst og fremst að þakka starfsfólki sem vinnur að heilindum fyrir sjóðfélaga í stöðugri leit að hagræðingu í rekstri sjóðsins.
Að endingu kæru sjóðfélagar er það stjórnarstarfið. Það er mat stjórnar að starfið á síðasta ári hafi endurspeglað heilbrigða og góða stjórnarhætti sem við leggjum nú í ykkar dóm, með framlagningu á ársreikningi og ársskýrslu fyrir rekstrarárið 2023.
Með því þakka ég stjórn og starfsfólki sjóðsins fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf og sjóðfélögum fyrir samfylgdina á árinu 2023.