Stefna um ábyrgar fjárfestingar er hluti af fjárfestingarstefnu Birtu. Lögð er áhersla á samþætta aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við hefðbundnar fjárhagslegar greiningar við samval verðbréfa.
Birta er aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ábyrgar fjárfestingar "UN PRI Principle for Responsible Investment". Grundvallarviðmið SÞ sáttmálans eru sex talsins og hefur Birta kappkostað að innleiða þessi viðmið í fjárfestingarstarfsemi sína þar sem því hefur verið viðkomið. Hér má sjá niðurstöður úttektar UN PRI.
Grundvallarviðmið SÞ, íslensk lög ásamt evrópskum reglugerðum leggja grunninn að aðferðafræði Birtu við samþættingu sjálfbærniviðmiða í fjárfestingarferli sjóðsins.
Þann 1. júní sl. tóku gildi lög nr. 25/2023 um innleiðingu tveggja reglugerða ESB sem snúa að upplýsingagjöf um sjálfbærniáhættu í eignasöfnum (SFDR) og flokkunarkerfi um sjálfbærar fjárfestingar (EU Taxanomy). Markmiðið með SFDR er að samræma og auka gagnsæi upplýsingagjafar um sjálfbærni í rekstri félaga. Upplýsingar sem Birtu lífeyrissjóði ber að birta samkvæmt lögunum má finna á heimasíðu sjóðsins.
Að auki er von á reglugerð vegna stórra og/eða skráðra fyrirtækja (CSDR) sem gert er ráð fyrir að taki gildi hérlendis á næstu misserum. Málaflokkurinn er í örri þróun og er fleiri reglugerða að vænta frá Evrópusambandinu sem hafa það markmið að sporna við grænþvotti og stuðla að sjálfbærum fjárfestingum. Þessi bætta upplýsingagjöf mun ef að líkum lætur leiða til upplýstari ákvarðanatöku í fjárfestingum.
Birta lífeyrissjóður horfir einnig til Heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun í allri sinni starfsemi. Um er að ræða umfangsmestu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um en markmið þeirra er að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030.
Birta er þátttakandi í samstarfi norrænna og breskra lífeyrissjóða um fjárfestingar í hreinni orkuframleiðslu
Viljayfirlýsing íslensku lífeyrissjóðanna gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition CIC kveður á um fjárfestingu fyrir samtals 4,5 milljarða Bandaríkjadala sem samsvarar um 580 milljörðum íslenskra króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Á tímabilinu 1. nóvember 2022 til 1. nóvember 2023 fjárfesti Birta fyrir um 3,7 milljarða kr. í verðbréfum sem teljast til umhverfissjálfbærra fjárfestinga samkvæmt skilgreiningu CIC. Til viðbótar skuldbatt sjóðurinn sig í erlendan framtakssjóð fyrir samtals 20 milljónir EUR sem samsvarar um 3 milljörðum kr. að núvirði sem mun leitast við að fjárfesta í félögum sem hafa það markmið að draga úr kolefnislosun og hafa þar með jákvæð loftslagsáhrif.
Að mati sjóðsins er sjálfbær þróun langtímaverkefni sem sífellt þarf að huga að, bæta við og gera betur. Mikil vinna er í gangi innan sjóðsins í þessum málaflokki og má þar fátt eitt nefna endurskoðun á stefnu hans um ábyrgar fjárfestingar, loftlagsáhættugreining ásamt undirbúningi að mikilvægisgreiningu samkvæmt 8. gr. laga nr. 25/2023. Þá hefur sjóðurinn verið að skoða hin ýmsu upplýsingakerfi sem nýtast við vinnuna gagnvart þessum málaflokki.
Eitt af verkefnum sjóðsins sem tengist málaflokknum beint er útreikningur á fjármagnaðri kolefnislosun eignasafns Birtu eftir aðferðafræði PCAF en nánari umfjöllun um það má finna hér.