Miklar framfarir hafa átt sér stað í tengslum við afgreiðslu sjóðfélagalána á undanförnum árum og hefur það sparað mikinn tíma og fyrirhöfn bæði fyrir sjóðfélaga og starfsmenn. Nær allar umsóknir um lán og skilmálabreytingar koma inn með rafrænum hætti en enn þarf að undirrita á pappír veðskuldabréf og skilmálabreytingar lánanna en það þarf að þinglýsa þessum skjölum á pappír hjá Sýslumanni.
Það er markmið Birtu að hefja rafrænar þinglýsingar á veðskuldabréfum og þeim skilmálabreytingum sem þarf að þinglýsa sem allra fyrst.
Ávinningur rafrænna þinglýsinga er mjög mikill bæði fyrir lántaka og lánveitendur en biðtími styttist til muna, ekki þarf að ferðast með pappírsskjöl á milli aðila og handvirkt vinnuframlag minnkar.
Verkefni um rafrænar þinglýsingar hjá Sýslumannsembættunum hefur verið í gangi frá árinu 2019 og staðan er þannig að nú er mögulegt að þinglýsa nær öllum tegundum veðskuldabréfa og skilmálabreytinga sem tengjast þeim rafrænt. Lánveitendur þurfa að aðlaga sín kerfi þannig að hægt sé að tengjast rafrænu þinglýsingakerfi embættanna og Birta er á lokametrunum í þeirri vinnu. Prófanir eru langt komnar og stefnum við á að hefja rafrænar þinglýsingar eins fljótt og kostur er. Stjórnarfrumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar hefur verið lagt fram á þingi og vonandi munu lögin taka gildi sem allra fyrst.