Aðkeypt tölvuþjónusta árið 2023 nam 5.1 milljónum króna en var 9.8 milljónir króna árið á undan. Kostnaður við rekstur upplýsingatækni kerfa nam 157,6 milljónum króna á árinu 2023 en var 165.1 milljónir króna árið 2022. Öryggi í rekstri upplýsingatækni verður sífellt stærri þáttur í rekstri sjóðsins vegna sívaxandi ógnar við net- og gagnaöryggi í upplýsingatækniumhverfi. Sjóðurinn leggur þunga áherslu á upplýsingatækniöryggi og að mæta nýjum ógnum með auknum vörnum og eru vel ígrundaðar fjárfestingar í auknu öryggi mikilvægar. Sjóðurinn mun halda áfram á þeirri vegferð að gæta vel að upplýsingatækniöryggi í framtíðinni með árvekni og skynsemi að leiðarljósi samhliða því að upplýsa og þjálfa starfsfólk til að greina hættur og bregðast rétt við þeim þegar ógn steðjar að.
Gjöld til umboðsmanns skuldara lækkuðu um 16,84%, eftirlitsgjöld til Fjármálaeftirlitsins hækkuðu um 9,3% á milli ára og greiðslur til Landssamtaka lífeyrissjóða hækkuðu um 13,36%.
Fjöldi stöðugilda á árinu var 28,7 og nam heildarfjárhæð launa 543 millj. kr., þar af voru launatengd gjöld 101 millj. kr. samanborið við 499 millj. kr. á árinu 2022 en þar af voru launatengd gjöld 92 millj. kr.
Annar rekstrarkostnaður nam 132.6 milljónum króna á árinu 2023 samanborið við 118 milljónir króna árið 2022. Hækkunin skýrist að stærstum hluta af sérstakri tryggingafræðilegri úttekt sem unnin var á árinu en kostnaður við hana nam 7,1 milljón króna. Einnig af vinnu við sjálfbærnivegferð sjóðsins, sem verður fyrirferðameiri í rekstri hans með hverju árinu og nam kostnaður við hana 5,7 milljónum króna á árinu 2023. Vinna við sérstaka skýrslu/grein um lífeyriskerfið kostaði 3,1 milljón króna.