Sjóðurinn metur reglulega hvaða áhættuþættir eru mikilvægastir í starfseminni. Við matið er litið til lengri tíma og m.a. byggt á því hvaða áhrif áhættuþættir geti haft á tryggingafræðilega stöðu, hverjar líkur eru á áhætta raungerist og að hve miklu leyti sé hægt að bregðast við og stýra áhættunni. Þeir áhættuþættir sem skilgreindir hafa verið sem helstu áhættuþættir eru m.a. markaðsáhætta, verðbólguáhætta, landsáhætta, gjaldmiðlaáhætta og pólitísk áhætta.
Markaðsáhætta – til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga fjárfestir sjóðurinn í verðbréfum sem sveiflast í virði eftir stöðu markaða hverju sinni.
Verðbólguáhætta – réttindi sjóðfélaga í samtryggingardeild eru að fullu verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Þetta þýðir að allar skuldbindingar samtryggingardeildar eru verðtryggðar en aðeins hluti af eignum eru verðtryggðar.
Landsáhætta – hættan á að eignir séu of tengdar einu landi eða of fá landsvæði standi að baki eignum sjóðsins, en það getur haft neikvæð áhrif ef m.a. illa gengur á innlendum mörkuðum eða í íslensku hagkerfi.
Gjaldmiðlaáhætta – hluti eignasafna sjóðsins er erlendar eignir en lífeyrisskuldbindingar sjóðsins eru eingöngu í íslenskum krónum. Sveiflur í gegni gjaldmiðla hafa því áhrif á jafnvægi eigna og skuldbindinga sem geta verið jákvæðar eða neikvæðar.
Pólitísk áhætta – áhættan af því að aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda auki lífeyrisbyrði sjóðs, auk annarra neikvæðra áhrifa sem óvissa um mögulegar stjórnvaldsaðgerðir kunna að skapa.
Fyrir helstu áhættuþætti hefur verið sett fram aðgerðaráætlun ef áhætta raungerist sem er í áhættustýringarstefnu og í eigin áhættumati sjóðsins.
Nánari upplýsingar um áhættuþætti í rekstri samtryggingardeildar og séreignardeilda sjóðsins eru í skýringu 18 í ársreikningi og einnig í áhættustefnu sem er aðgengileg á vef sjóðsins.