Áhættustýring

Stjórn Birtu hefur sett lífeyrissjóðnum áhættustefnu, enda er sjóðnum skylt að hafa áhættustýringu samkvæmt ákvæðum laga og reglugerðar nr. 590/2017 um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða.

Áhættuþættir í starfsemi og áhættustýring

Stjórn Birtu hefur sett lífeyrissjóðnum áhættustefnu, enda ber lífeyrissjóðum skylda til að koma upp heildaráhættustýringu, sbr. ákvæðum laga og reglugerða og annarra viðmiða. Stjórn skal móta eftirlitskerfi sem gerir sjóðnum kleift að greina, meta, vakta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins, skv. 9. tl. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997. Skipulag áhættustýringar er einn af lykilþáttum í rekstri Birtu lífeyrissjóðs.

  • Áhættustjóri ber ábyrgð á starfssviði áhættustýringar í samræmi við stefnur sjóðsins. Sjóðurinn leggur áherslu á að starfsmenn hafi skilning á hlutverki sínu í áhættustýringu sjóðsins og taki þátt í henni m.a. með því að vera meðvituð um mikilvægi eftirlitskerfis og taki þátt í innleiðingu viðeigandi áhættumenningar innan sjóðsins.
  • Starfssviðs áhættustýringar er sjálfstætt og óháð öðrum starfseiningum sjóðsins, heyrir beint undir framkvæmdastjóra og hefur milliliðalausan aðgang að stjórn, endurskoðunarnefnd og þeim upplýsingum sem þarf til að sinna hlutverki sínu.
  • Áhættustýring sinnir daglegu eftirliti með fylgni sjóðsins við fjárfestingastefnu, hvað varðar samtryggingardeild og séreignardeildir sjóðsins. Ef fjárfestingarheimild er að fullu nýtt eða komin umfram heimildir er stjórn sérstaklega gerð grein fyrir ástæðum þess.
Meginmarkmið áhættustefnu Birtu

Meginmarkmið áhættustefnu Birtu er að minnka líkur á skerðingu á réttindum sjóðfélaga til lengri tíma, ásamt því að móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins til lengri tíma með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru í boði á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.

Áhættustýring í starfsemi sjóðsins

Stjórn og framkvæmdastjóri stuðla að góðum stjórnarháttum og leggja áherslu á mikilvægi áhættustýringar og innra eftirlits innan sjóðsins

Meginhlutverk sjóðsins er að taka á móti iðgjöldum, ávaxta þau, greiða út lífeyri og veita sjóðfélögum góða þjónustu. Við rekstur lífeyrissjóðs eru margvíslegir áhættuþættir sem flokkaðir eru í fimm megin áhættuflokka sem skiptast síðan í 32 undirflokka. Flokkunin fer byggir á eðli áhættunnar, en mikilvægt er að hafa í huga að áhætta er breytilegt ástand en ekki stöðugt.

Fimm megináhættuflokkar Birtu
  • Lífeyristryggingaáhætta
  • Fjárhagsleg áhætta
  • Mótaðilaáhætta
  • Lausafjáráhætta
  • Rekstraráhætta

Sjóðurinn metur reglulega hvaða áhættuþættir eru mikilvægastir í starfseminni. Við matið er litið til lengri tíma og m.a. byggt á því hvaða áhrif áhættuþættir geti haft á tryggingafræðilega stöðu, hverjar líkur eru á áhætta raungerist og að hve miklu leyti sé hægt að bregðast við og stýra áhættunni. Þeir áhættuþættir sem skilgreindir hafa verið sem helstu áhættuþættir eru m.a. markaðsáhætta, verðbólguáhætta, landsáhætta, gjaldmiðlaáhætta og pólitísk áhætta.

Markaðsáhætta – til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga fjárfestir sjóðurinn í verðbréfum sem sveiflast í virði eftir stöðu markaða hverju sinni.

Verðbólguáhætta – réttindi sjóðfélaga í samtryggingardeild eru að fullu verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Þetta þýðir að allar skuldbindingar samtryggingardeildar eru verðtryggðar en aðeins hluti af eignum eru verðtryggðar.

Landsáhætta – hættan á að eignir séu of tengdar einu landi eða of fá landsvæði standi að baki eignum sjóðsins, en það getur haft neikvæð áhrif ef m.a. illa gengur á innlendum mörkuðum eða í íslensku hagkerfi.

Gjaldmiðlaáhætta – hluti eignasafna sjóðsins er erlendar eignir en lífeyrisskuldbindingar sjóðsins eru eingöngu í íslenskum krónum. Sveiflur í gegni gjaldmiðla hafa því áhrif á jafnvægi eigna og skuldbindinga sem geta verið jákvæðar eða neikvæðar.

Pólitísk áhætta – áhættan af því að aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda auki lífeyrisbyrði sjóðs, auk annarra neikvæðra áhrifa sem óvissa um mögulegar stjórnvaldsaðgerðir kunna að skapa.

Fyrir helstu áhættuþætti hefur verið sett fram aðgerðaráætlun ef áhætta raungerist sem er í áhættustýringarstefnu og í eigin áhættumati sjóðsins.

Nánari upplýsingar um áhættuþætti í rekstri samtryggingardeildar og séreignardeilda sjóðsins eru í skýringu 18 í ársreikningi og einnig í áhættustefnu sem er aðgengileg á vef sjóðsins.

Áhættuvilji og áhættuþol

Stjórn hefur sett fram áhættuvilja sinn og skilgreint hefur verið áhættuþol sjóðsins, eins og mögulegt er á mælanlegan hátt, eftir helstu áhættuþáttum, sbr. 36. gr. e. laga nr. 129/1997. Stjórn ber ábyrgð á rekstri sjóðsins og leggur mat á hve mikla áhættu hún er reiðubúin að taka fyrir hönd sjóðfélaga.

Áhættustýring hefur reglulegt eftirlit með niðurstöðu áhættumælinga, stöðu þeirra gagnvart áhættuvilja stjórnar og skilgreindu áhættuþoli sjóðsins og upplýsir stjórn reglulega.